Ég vil að ný stjórnarskrá sé skýr rammi sem tekur á öllum þáttum þjóðfélagsins og er grundvöllur almennrar lagasetningar. Hún á að tryggja jafnan rétt allra að gæðum landsins sem og ábyrgð þeirra í samfélaginu.
Stjórnarskráin þarf að vera auðlæsileg og aðgengileg öllum. Aðaltextinn þarf að vera skýr og stuttur þannig að hver framhaldsskólanemandi geti lesið yfir stjórnarskrá Íslands og skilið hana.
Ég vil að mannréttindakaflinn standi framarlega í henni, jafnvel allra fremst.
Ég vil byggja hana þannig upp að á bakvið hverja grein hennar standi allítarlegar útskýringar í undirskýringu um öll þau atriði sem nefnd eru sem og orðskýringar.
Ég tel mikilvægt að ákvæði sé um reglulega endurskoðun stjórnarskrárinnar af nefnd sem ekki er skipuð þingmönnum. Áhugavert er að skoða hvernig lýðræðisleg aðkoma almennings geti verið að þeirri reglulegu endurskoðun.
Í vinnunni þarf að byggja á því sem nú þegar hefur verið gert en gríðarleg vinna hefur verið lögð í endurskoðun ýmissa ákvæða stjórnarskrárinnar undanfarin ár.
Ég tel ekki ástæðu til þess að kollvarpa stjórnarskránni einungis til þess að breyta heldur sé mikilvægt að byggja á því góða sem í henni er en bæta verulega við þau atriði sem er umbóta þörf.
Við vinnuna þarf að hafa í huga að stjórnarskráin sé rammi sniðinn um það samfélag sem við viljum búa í. Hún þarf að vera unnin með það að leiðarljósi að geta staðið til framtíðar. Hún þarf að vera samin með það að leiðarljósi að henta samfélagi með 318.200 íbúum sem mun svo fjölga í framtíðinni.