Þátttaka í stjórnmálum, hvers vegna?

(grein birt í Morgunblaðinu í maí 2007).

„Kidda, þú átt örugglega eftir að enda á Alþingi. Þú talar svo mikið!“ Þetta var sagt við mig þegar ég var ung stúlka. Hvers vegna hóf ég afskipti af stjórnmálum? Ég hef miklar skoðanir á umhverfinu í kringum mig og óendanlegan áhuga á manneskjunni í sinni víðtækustu mynd. Ég hef áhuga á því að hafa áhrif og breyta samfélaginu þannig að það rúmi alla sína þegna en ekki aðeins meðalmanninn. Lítið, ríkt samfélag eins og við þekkjum hér á landi á að geta verið fyrirmyndarsamfélag. Við höfum tækifæri til þess að vinna einstaklingsmiðað og byggja samfélag sem hefur alla í huga.

Ég hef starfað að málefnum fatlaðs fólks frá árinu 1999, fyrst sem stuðningsfulltrúi, svo deildarstjóri og að lokum forstöðumaður á sama sambýli. Ég hef setið ótal ráðstefnur sem fjallað hafa um málefni fatlaðs fólks í víðtækri mynd. Einnig hef ég menntað mig með BA gráðu í sálfræði og diplómagráðu í fötlunarfræðum þannig að ég hef góðan grunn til þess að vinna að félagsmálum en þar liggur minn helsti áhugi í stjórnmálum.

Ég hef orðið vör við hvar skóinn kreppir og hvar og hvernig er hægt að gera betur. Þau málefni sem snúa að fötluðu fólki eiga einnig við um aðra hópa eins og málefni aldraðra, málefni innflytjenda og fjölskyldumálin. Gagnvirkt samráð er afar mikilvægt þar sem þeir sem málin snúa að: notendur, aðstandendur, fagfólk, stjórnmálamenn, embættismenn, fræðimenn og aðrir eru virkir þátttakendur í tilraunaverkefnum og ákvörðunarferlinu. Það er mikilvægt að ráðast ekki í miklar breytingar nema hafa rannsakað nýjar leiðir með tilraunaverkefnum. Eins og kennarinn minn í fötlunarfræðum dr. Rannveig Traustadóttir, félagsfræðingur og dósent í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands sagði eitt sinn: „Það dytti engum verkfræðingi í hug að byggja brú nema gera allar mögulegar mælingar áður“. Eins á því að vera farið með málefni fólks. Það á ekki að ráðast í stórframkvæmdir nema búið sé að gera athuganir og vinna tilraunaverkefni áður til að kanna hvort „brúin“ heldur. Þess vegna er einnig mikilvægt í þessum málaflokkum að góð samvinna sé við fræðafólk sem vinnur rannsóknir á sviðinu. Að mínu mati er það grundvallaratriði í velferðarmálum að bjóða ekki öðrum upp á þær aðstæður sem þér hugnast ekki sjálfum.

Einnig tel ég þátttöku í samfélaginu vera mikilvæga fyrir alla hópa. Að vera fullur þátttakandi í samfélaginu gefur hverjum manni aukið sjálfstraust, eflir samfélagið, bætir viðhorf og dregur úr fordómum. Ef við tökum fatlað barn sem dæmi þá er afar mikilvægt að það sé fullur þátttakandi í hinu almenna skólakerfi þar sem það kynnist ófötluðum nemendum og ófötluðu nemendurnir kynnast því að öll erum við ólík með misjafna styrkleika. Ég er sannfærð um að ef þetta yrði raunin þá yrði margt af því sem fullorðið fatlað fólk er að glíma við úr sögunni. Til þess að geta verið fullur þátttakandi þarf að ryðja ýmsum hindrunum úr vegi. Fyrir fólk af erlendum uppruna er það meðal annars tungumálið sem efla má með góðri íslenskukennslu. Fyrir fatlað fólk eru það til dæmis aðgengismál og viðhorf sem skipta miklu máli.

Það eru spennandi tímar framundan. Þjóðin er afar vel stæð. Hér hefur verið sköpuð sú hagsæld með áherslu á vinnu og vöxt að nýjir möguleikar opnast í velferðarmálum. Núna stöndum við betur að vígi til þess að byggja upp betra velferðarkerfi og betra samfélag til framtíðar. Mikilvægt er að leggja þunga áherslu á þessi mál. Ekki má þó gleyma því að sumt af því sem færir samfélagið til betri vegar og gerir það aðgengilegt öllum er ekki endilega atriði sem kosta mikið fjármagn. Sumt liggur í viðhorfsbreytingu okkar allra fyrir því að allir eigi að vera jafnir í okkar samfélagi og þess vegna sé samfélagið byggt upp með alla í huga. Sem dæmi um þetta þá er ekki mikill kostnaður við það að hanna heimasíður þannig að þær séu aðgengilegar fötluðu fólki, öldruðum og fólki af erlendu bergi brotnu en aðgengi að upplýsingum er stór þáttur í þátttöku.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s