Aðventan og jólaandinn

(Birt í Mosfellingi 5.12.2008)

Síðasta sunnudag kveiktum við á spádómskertinu á aðventukransinum og þann næsta verður Betlehemskertið tendrað. Aðventan einkennist af undirbúningi jólahátíðarinnar og oft ríkir spenningur hjá ungum sem öldnum. Jólin og aðventan eru ákaflega sérstakur tími í mínum huga. Jólaljósin lýsa upp skammdegið og kveikja nýja von. Allt fær á sig hátíðlegan blæ. Hversdagsleikinn víkur fyrir bjartari, hlýrri og kærleiksríkari tímum. Á sama tíma gerir maður upp árið sem senn rennur sitt skeið og horfir fram á veginn mót nýju ári og nýjum tækifærum.

Aðventan getur líka einkennst af streitu og óhófi. Fólk ætlar að gera allt á stuttum tíma. Það þarf að þrífa allt hátt og lágt, kaupa jólagjafir, skrifa jólakort, baka smákökur, kaupa jólaföt, fara á jólahlaðborð, fara í jólaklippingu og snyrtingu, fara í ræktina til þess að komast í jólakjólinn og svona má lengi telja. Á þessum tíma er þar að auki aukið álag í starfi hjá mörgum. Sú hætta getur skapast að fólk keyri sig út og njóti ekki aðventunnar eða jólahátíðarinnar. Maður er stundum svo upptekinn að eltast við það stóra að maður gleymir hinu smáa en kannski er það smáa einmitt það sem skiptir mestu máli. Það er ekki til mikils að vinna að hafa allt spegilgljáandi, líta stórglæsilega út í nýja jólakjólnum og gefa flottustu gjafirnar ef maður sofnar svo ofan í humarsúpuna!

Undanfarið haust hefur verið okkur Íslendingum erfitt. Gríðarlegir erfiðleikar hafa verið í samfélaginu í kjölfar hruns efnahagskerfisins. Það hefur svo leitt af sér aukið atvinnleysi, ótryggt ástand, kjaraskerðingu og aðra erfiðleika eins og kunnugt er. Andrúmsloftið er blandið ótta, óvissu, reiði og öðrum neikvæðum tilfinningum. Það er mjög eðlilegt í þessu ástandi. Þessi grein er skrifuð til þess að hvetja fólk sérstaklega til þess að draga fram björtu hliðarnar, jákvæðnina og finna hinn sanna jólaanda á aðventunni. Hvað er það sem skiptir okkur mestu máli þegar upp er staðið? Fólkið og jólaandinn er það sem skiptir mestu máli að mínu mati. Fólkið sem maður nýtur hátíðarinnar með, fólkið sem maður gefur gjafir, fólkið sem maður sendir jólakort og fólkið sem maður vottar virðingu sína með því að setja ljós á leiði þess.

Það er mikilvægt að vera til staðar fyrir hvert annað og sýna kærleika og hlýju. Bæði gagnvart sínum nánustu en einnig gagnvart ókunnugum. Þetta er sérstaklega mikilvægt fyrir börnin. Þau hafa þörf fyrir það að njóta aðventunnar og hlakka til jólanna án þess að það sé í skugga áhyggna og ótta. Samveran og hinn sanni jólaandi er það dýrmætasta. Jólaandinn gerir ekki greinarmun á því hvort allir skápar hafi verið teknir í gegn, gjafirnar séu óhóflega stórar eða hvort maður hafi komist í jólakjólinn. Hinn sanni jólaandi er ekkert af þessu. Hann fæst ekki keyptur, hvorki fyrir krónu eða evru og ekki er hægt að þvinga hann fram í gljáfægðri stássstofunni. Nei, jólaandinn kemur innan frá. Jólaandinn er brosið, faðmlagið, augnatillitið, bjarminn, hlýjan, gleðin, þakklætið, nýfallinn glitrandi snjórinn og annað sem einkennir jólaanda hvers og eins. Með aðventukertunum getur allir tendrað sína framtíðarsýn og von.

Ég vona að þú lesandi góður eigir góða aðventu og jólahátíð sem einkennist af hinum sanna jólaanda og að þú skapir góðar minningar með þér og þínum.

Gleðilega hátíð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s