Yfirfærsla málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga árið 2011

Þann 28. ágúst s.l. var stigið fyrsta skrefið mót nýrri framtíð varðandi málefni fatlaðs fólks. Þá var undirritaður samningur við Reykjavíkurborg um það að hún taki að sér framkvæmd þjónustu fyrir geðfatlað fólk í byrjun næsta árs. Samkvæmt metnaðarfullri stefnumótun félagsmálaráðuneytisins „Mótum framtíð“ er stefnt að því að í kjölfarið fylgi yfirfærsla á þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga eða eins og sagt er í skýrslu á vef ráðuneytisins að:

„Unnið verði að því á árunum 2007-2009 að samhæfa stærstan hluta félagslegrar þjónustu sveitarfélaga og ríkis með það fyrir augum að skipulag og framkvæmd verði skýrari og markvissari. Stefnt er að því að á árunum 2010-2011 verði meginhluti þjónustunnar kominn á hendur sveitarfélaga“. (http://www.felagsmalaraduneyti.is)

Verkefnið er spennandi, umfangsmikið og flókið og felur í sér nýjar áskoranir og tækifæri. Helstu styrkleikar eru að með því færast verkefnin yfir á eina hendi og það hefur verið samróma álit flestra að sé til heilla. Einnig hefur verið bent á að með nærþjónustu sé auðveldara að klæðskerasníða þjónustuna. Veikleikar yfirfærslunnar eru meðal annars þeir að vegna misgóðra fjárhagslegra burða sveitarfélaga getur slíkt orðið þungt fyrir illa stæð og lítil sveitarfélög og það getur skapað notendum óþægindi hversu mikil nálægð er þar sem slíkt getur ýtt undir neikvæð viðhorf um fatlað fólk sem „byrði“ á samfélaginu. Við yfirfærslu leynast tækifæri til breytinga og er stefnumótun ráðuneytisins metnaðarfull og framsækin. Þar er meðal annars stefnt að því að árið 2010 búi fatlað fólk almennt í þjónustuíbúðum eða á eigin vegum óháð þeim stuðningi sem það hefur þörf fyrir. Einnig er stefnt að því að árið 2012 verði a.m.k. helmingur starfsmanna í málaflokknum með fagmenntun á sviði fötlunar og þekking, færni, gæði og verklag verði á við það besta sem þekkist í Evrópu. Það hefur verið rætt um það af fagfólki að aðskilja húsnæðishluta og stuðningshluta þjónustunnar. Slíkt eykur möguleika á einstaklingsmiðaðri þjónustu. Auk þess er það í takt við þá hugmynd að fatlað fólk eigi val um búsetumöguleika frá eigin húsnæði að sambýli þar sem það getur valið sér hvaða fólki það býr með. Einnig hafa hugmyndir um notendastýrða þjónustu verið að ryðja sér til rúms þar sem notandinn fær fjármagnið beint til sín og sér sjálfur (eða umboðsmaður hans) um að skipuleggja þjónustuna og ráða starfsfólk. Það eru þó nokkur atriði sem velta má fyrir sér við yfirfærslu sem ógn við metnaðarfullar hugmyndir. Hversu mikið fjármagn fylgir er stóra spurningin sem flestir spyrja sig að og hvernig verða slíkir tekjustofnar skipulagðir til þess að tryggja að þeir séu bundnir við þessa þjónustu, hvernig á að mæta smærri, tekjuminni sveitarfélögum til að tryggja möguleika fatlaðs fólks á þjónustu óháð staðsetningu?

Óljóst er hversu langt undirbúningur verkefnis er kominn og ekki hefur farið fram mikil umræða í þjóðfélaginu. Mikilvægt er að hefja hana sem fyrst og erum við framsóknarfólk tilbúin að stuðla að og taka virkan þátt í henni. Til þess þyrfti að halda ráðstefnur þar sem skapaður yrði samráðsvettvangur notenda, aðstandenda, starfsfólks, hagsmunasamtaka, ríkis og sveitarfélaga til kynningar og umræðu á undirbúningi og framkvæmd yfirfærslunnar. Þannig skýrist betur hvert stefnir í nánustu framtíð.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s