Þú átt leik

Ég sat við tölvuskjáinn úti í Árósum þar sem ég var í námi þegar allt hrundi, táraðist yfir að sjá hvernig komið var fyrir íslenskri þjóð en upp frá því kviknaði áhugi á því að leggja mitt lóð á vogarskálarnar við það að nýta þetta tækifæri til þess að bæta íslenskt samfélag og hag almennings.

Hvers vegna mótmælir fólk?

Undanfarin tvö ár hafa Íslendingar fjölmennt reglulega á Austurvöll, jafnvel í nístingskulda, kveikt elda og barið af öllum mætti í potta, pönnur, tunnur og ýmislegt fleira. Fólk hefur hent eggjum og látið óánægju sína í ljós með ýmsum hætti. Hvers vegna ætli fólk geri þetta? Jú, vegna þess að í núverandi stöðu eru þetta einu vopnin sem almenningur hefur. Minnstu munaði að yfir þjóðina yrði lagður ókleifur skuldaklafi vegna Icesave samninganna sem kostað hefðu þjóðina og komandi kynslóðir augun úr. Sem betur fer reis þjóðin upp og forseti landsins stöðvaði af mestu ólög sem farið hafa í gegnum Alþingi Íslendinga. Þessi atburður og margir aðrir sem tengjast hruni fjármálakerfisins hafa vakið þjóðina og upplýst þörfina fyrir það að endurskoða rammann um það samfélag sem við búum í, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

Sögulegt tækifæri

Þegar allt fer í þrot þá skapast gríðarlegt tækifæri til endurmats og vaxtar. Það tækifæri liggur hjá íslensku þjóðinni núna. Erfiðasta fólkið sem maður mætir á lífsleiðinni og erfiðasta lífsreynslan er í raun það sem maður ætti að vera þakklátastur fyrir því það gerir mann að því sem maður er. Þessu hefur Dalai Lama, andlegur leiðtogi Tíbeta, haldið fram. Við eigum einstakt tækifæri til þess að endurmeta grunngerð samfélags okkar og vaxa upp til blómlegri framtíðar. Margar af bestu stjórnarskrám heims hafa verið samdar upp úr hruni og kreppu. Margir mestu leiðtogar heims hafa einnig stigið fram á válegum tímum. Þetta er stórt og mikið samvinnuverkefni og við þurfum öll að leggjast á árarnar og vinna það saman.

Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott

Samfélag rúmlega 318 þúsund manna sem byggja eitt gjöfulasta land heims á að geta verið gott samfélag og þar eiga allir að geta haft það gott! Það hefur því miður ekki verið raunin. Gæðum landsins hefur verið mjög misskipt, sumir eiga milljarða en aðrir standa í biðröðum eftir mat. Þessu getum við breytt og þessu verðum við að breyta. Almenningur verður að snúa bökum saman og berjast fyrir betra Íslandi. Vel heppnað stjórnlagaþing er fyrsta skrefið inn í nýja framtíð. Ég vil meðal annars sjá þjóðareign á auðlindum sem ákvæði í nýrri stjórnarskrá og greinar sem stuðla að því að valdið liggi raunverulega hjá fólkinu eins og ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör.

Þjóðin á að kjósa um nýja stjórnarskrá áður en þingið tekur frumvarpið til meðferðar

Til þess að raunveruleg breyting náist fram verður lýðræðið að virka og valdið að liggja hjá þjóðinni sjálfri alla leið. Þegar drög að nýrri stjórnarskrá hafa verið samin af stjórnlagaþingi þarf þjóðin að greiða atkvæði um hvern kafla hennar og drögin í heild sinni áður en Alþingi fær málið til umfjöllunar.

Þú átt leik – taktu þátt í þvi að byggja betra Ísland og mættu á kjörstað á laugardag!

(Gestapistill birtur á bloggsíðu Gísla Tryggvasonar á Eyjunni í dag)

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Slóð á útvarpsviðtalið

Með því að smella hér getur þú hlustað á útvarpsviðtalið sem tekið var upp af Rás 1.

Kristbjörg Þórisdóttir nr.6582

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Café Haiti í kvöld

Ég verð á Café Haiti í kvöld kl. 20.30 þar sem ég mun kynna mig og helstu stefnumál mín.

Ég vonast til þess að sjá þig 🙂

Café Haiti verbúð við Gömlu höfnina

Geirsgötu 7b
Reykjavík, Iceland
Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Útvarpsviðtal og kaffiboð

Dagurinn í dag hefur verið annasamur hjá mér sem frambjóðanda eins og eflaust flestum öðrum í þessum sporum.

Dagurinn hófst á útvarpsviðtali í Efstaleiti sem verður spilað á Rás 1 í vikunni en hægt verður að nálgast hlekki á viðtölin á þessum vef og mun ég deila þeim hér.

Að loknu viðtalinu hélt ég upp í ráðhús þar sem Kvenréttindafélag Íslands bauð kvenframbjóðendum í kaffi og konfekt þar sem kjósendum gafst færi á að koma og hitta okkur.

Það var ánægjulegt að uphaflega átti fundurinn að vera í sal KRFÍ en vegna þess að hann er ekki aðgengilegur öllum var fundurinn færður til vegna ábendingar frá Freyju Haraldsdóttur frambjóðanda.

Það fyllir mig alltaf jafn miklum eldmóð að byrja að ræða hugsjónir mínar við fólk og fá að heyra það sem fólk er að upplifa og sýn hvers og eins.

Næsta vika verður annasöm en mikið er ég ánægð að hafa boðið mig fram því ég hef nú þegar kynnst ótalmörgu áhugaverðu fólki og lært mikið.

Farið vel með ykkur 🙂

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Nú treysti ég á þig!

Þar sem ég mun ekki nýta mér mátt fjölmiðla til þess að auglýsa þá treysti ég á þig að aðstoða mig við að koma mér og mínum stefnumálum á framfæri.

Ef þú þekkir mig þá veistu væntanlega hvað ég stend fyrir. Ef þú þekkir mig minna getur þú skoðað áherslur mínar og greinarnar sem ég hef birt síðustu ár. Ef þig langar til þess að heyra beint í mér getur þú skrifað mér tölvupóst á kristbjorgthoris@simnet.is eða hringt í s: 8978181

Ég þigg allar ábendingar og rýni til gagns því ég veit vel að ég hef ekki öll svörin og er í raun aðeins á upphafsreit varðandi þau málefni sem stjórnlagaþing mun fjalla um. En ég er tilbúin til þess að fræðast, hlusta, lesa mér til og mynda mér þannig upplýsta skoðun.

Svona getur þú hjálpað mér:

  • Talað við fólk í kringum þig, jafnvel hringja í það
  • Fá nafnspjöld hjá mér og dreifa fyrir mig (sem er einmitt eitt af því sem ég legg kostnað í en greiði úr eigin vasa – ég get því ekki sagt að ég eyði ekki krónu í framboðið því ég mun eyða uþb. 50 þúsund krónum í það)
  • Deila þessari síðu fyrir mig til dæmis á Fésbókinni
  • Deila bloggsíðu minni fyrir mig sem ég hef bloggað á í nokkur ár og hægt er að lesa sér allítarlega til um pælingar mínar í gegnum tíðina
  • Deila Fésbókarsíðu framboðsins fyrir mig og smella á „líkar við“
  • Deila atburðinum „Kjósa Kristbjörgu Þórisdóttur nr. 6582 á stjórnlagaþing“ og smella á „mæti“

Ég virði það ef þú hefur annan frambjóðanda sem þú kýst að nota atkvæði þitt í en vona þá að ég sé á listanum þínum (sem efst auðvitað) og þú látir aðra vita af mér 🙂

Þú hefur nefnilega bara eitt atkvæði og 24 til vara samkvæmt þessu kosningakerfi.

Umfram allt hvet ég þig til þess að taka þátt í þessu sögulega tækifæri sem við sem þjóð fáum til þess að stíga skref inn í betri framtíð fyrir land og þjóð 🙂

Kær kveðja,

Kristbjörg Þórisdóttir eða á ég að segja nr. 6582… 😉

Eigðu góðan dag og mundu að hvert augnablik er það dýrmætasta sem þú átt!

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Ég mun ekki kaupa auglýsingar

Ég hef skrifað undir þennan undirskriftarlista til þess að staðfesta það að ég mun ekki kaupa auglýsingar vegna framboðs míns til stjórnlagaþings.

Ég mun prenta út nafnspjöld, hringja, keyra á fundi og jafnvel eitthvað annað. Kostnaður verður væntanlega undir 50 þúsund krónum. Hann er greiddur úr eigin vasa.

Ég treysti því á þig kæri stuðningsmaður að bera mér gott orð og kynna öðru fólki fyrir síðunum mínum, mér og mínum stefnumálum.

Umfram allt hvet ég þig til þess að láta ekki það sögulega tækifæri sem þjóðin fær 27. nóvember til þess að taka fyrsta skrefið inn í nýja framtíð framhjá þér fara!

Taktu þátt!

Tækifærið er NÚNA!

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Aðstoð til kjósenda

Vefir sem gagnast geta kjósendum í þeirra vali

Facebook Like yfirlit

Góðar greinar um kosningakerfið

(birt með góðfúslegu leyfi http://www.kjosa.is)

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Kvennapartý að Hallveigarstöðum

Ég og nokkrar aðrar góðar konur, langar að bjóða öllum kvenframbjóðendum og öllum konum sem styrkja konur í partý í kvöld!! Endilega mætið með góða skapið, kannski eina rauðvín og fimmhundruðkall á Hallveigarstaði, Túngötu 14. Parýið byrjar kl 21!

Laugardaginn 13. nóvember, verður haldið boð/partí á Hallveigarstöðum þar sem konur í framboði til stjórnlagaþings bjóða konum að hitta sig og skemmta sér. Yfirskriftin er Konum eru konum bestar 🙂
Engin formleg dagskrá og ekki er ætlast til ræðuhalda. Þetta er hins vegar kjörið tækifæri fyrir konur í framboði að kynna sig og málefni sín og því hvetur Femínistafélag Íslands allar konur að mæta sem mögulega geta. Gestir eru beðnir að taka eigin drykkjarföng með. Inngangur verður 500 kr (eða frjáls framlög í reiðufé) við dyrnar til að dekka kostnað við eldhús og þrif. Húsnæðið er í boði Kvenréttindafélags Íslands.
Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Kristbjörgu Þórisdóttur á stjórnlagaþing

(þessi grein birtist í Mosfellingi í dag)

Mynd af Kristbjörgu Þórisdóttur frambjóðanda til stjórnlagaþingsÁgætu Mosfellingar!

Ég heiti Kristbjörg Þórisdóttir og er Mosfellingur sem býð mig fram til stjórnlagaþings. Ég er 32 ára kandídatsnemi í sálfræði við Árósarháskóla sem er að ljúka námi mínu um áramótin. Ég er einnig með diplóma gráðu í fötlunarfræðum frá Háskóla Íslands. Lengst af hef ég starfað að málefnum fatlaðs fólks eða í 8 ár, sem stuðningsfulltrúi, deildarstjóri og forstöðumaður á sambýli fatlaðs fólks. Ég hef tekið virkan þátt í félagsstörfum frá 2006 og starfaði m.a. í Fjölskyldunefnd Mosfellsbæjar 2006-2007 sem fulltrúi Framsóknar og er núna áheyrnarfulltrúi í sömu nefnd á vegum Íbúahreyfingarinnar. Ég hef áhuga á því að vinna með fólki, fyrir fólk. Ég hef áhuga á manneskjunni í sinni víðtækustu mynd og hvernig við getum byggt betra samfélag á Íslandi!

Sögulegt tækifæri

Um þessar mundir stendur íslenska þjóðin frammi fyrir sögulegu tækifæri. Við höfum tækifæri til þess að endurskoða og betrumbæta frá grunni þann ramma sem sniðinn er um það samfélag sem við viljum búa í. Meðal annars í þeirri vinnu sem fór fram á þjóðfundi, þeirri umræðu sem á sér stað í samfélaginu og með stjórnlagaþingi. Vönduð stjórnarskrá leggur grunninn að framúrskarandi samfélagi með öflugar grunnstoðir. Á Íslandi eiga allir að geta haft það gott! Við erum fámenn þjóð sem er rík af auðlindum.

Ég hef að leiðarljósi að fara inn á stjórnlagaþing með opnum huga, jákvæðni, krafti og metnaði í farteskinu. Ég mun kynna mér málefnin til hlítar, hlusta á umræður og rök beggja aðila og móta stefnu mína þannig með upplýstum hætti. Ég tel mikilvægt að lesa meginpart af rannsóknarskýrslu Alþingis, skýrslu þingmannanefndarinnar, stjórnarskrár annarra ríkja og önnur viðeigandi gögn. Einnig mun ég hafa niðurstöður þjóðfundarins að leiðarljósi.

Áhersluatriði

Ég hef nokkur áhersluatriði: Umgjörð um þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör til lýðræðisumbóta. Þjóðareign á auðlindum okkar og arður af þeim renni til þjóðarinnar. Tryggja það að lykilfyrirtæki samfélagsins geti aldrei orðið að meirihluta í eigu erlendra eða innlendra kjölfestufjárfesta heldur séu ávallt að meirihluta í opinberri eigu almennings. Umbætur á starfsemi Alþingis, meðal annars að ráðherrar séu aldrei þingmenn á sama tíma heldur séu skýr skil á milli löggjafarvalds og framkvæmdarvalds, þingmenn geti að mesta lagi setið þrjú kjörtímabil en geti svo boðið sig fram á ný að öðrum tólf árum liðnum og að unnið verði að því að styrkja Alþingi í hlutverki sínu sem mikilvæga stofnun samfélagsins meðal annars með því að vinnustaðurinn verði fjölskylduvænni og styðji betur við þingmenn sem manneskjur í krefjandi hlutverki sínu.

Upplýsingar um framboð mitt

Ég hvet þig til þess að kynna þér framboð mitt betur en það getur þú meðal annars gert með því að fara inn á Facebook síðu framboðsins http://www.facebook.com/home.php?#!/pages/Kristbjorgu-porisdottur-a-Stjornlagabing/111631408901841 og heimasíðu þess https://kristbjorg.wordpress.com/. Þar er meðal annars að finna hagsmunaskrániningu mína.

Auðkennisnúmerið mitt er 6582. Ég bið um stuðning þinn og bið þig um að setja mig helst í 1. sætið!

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd

Ég hef ekki öll svörin

Í framboði til stjórnlagaþings erum við frambjóðendur beðin um að taka afstöðu til margra grundvallaratriða sem lúta að undirstöðu samfélags okkar.

Satt best að segja þá er það ekki auðvelt mál. Svör við þessum spurningum verða ekki hrist fram úr erminni á einni kvöldstund. Fyrirfram hefur maður ákveðið viðhorf, sýn og skoðanir en það er langt í frá að maður hafi mótað sér rækilega upplýsta afstöðu til allra þeirra atriða sem eru í stjórnarskránni eða þurfa að vera í henni. Til þess þarf miklu meiri vinnu og miklu meiri tíma. Sjálf tel ég afar mikilvægt að lesa mér vel til í Rannsóknarskýrslu Alþingis, skýrslu þingmannanefndarinnar, stjórnarskrár annarra ríkja, lúslesa stjórnarskrá okkar og fara yfir ýmis önnur viðgeigandi gögn til að fræða sjálfa mig fyrir þá miklu vinnu sem framundan er. Ég tel ekki rétt að taka afstöðu byggða á tilfinningunni einni saman.

Því bið ég fólk um að hafa það í huga varðandi þau svör sem ég gef upp hér á vefnum að ég hef ekki kynnt mér allar hliðar, gögn og rök í öllum málum og því er sú afstaða sem ég tek á þessum tímapunkti að talsverðu leyti takmörkuð en gefur vonandi einhverja mynd af mér sem frambjóðanda.

Ég tel mikilvægt að fara inn í þessa vinnu með opinn huga, jákvæðni, metnað, bjartsýni og síðast en ekki síst með einn munn en tvö eyru. Ég tel einnig mikilvægt að líta á verkefnið sem stórt samvinnuverkefnið þjóðar. Við þurfum öll að velta þessum atriðum fyrir okkur, horfa til þess sem fulltrúar þjóðarinnar á Þjóðfundi lögðu til og finna sameiginlegan farveg mála sem við getum sem flest skrifað upp á og getur undirbyggt framúrskarandi samfélag á Íslandi.

Ég óska okkur öllum heilla á þeirri spennandi vegferð sem er framundan við það að byggja betra Ísland.

Birt í Framboð til stjórnlagaþings | Færðu inn athugasemd