Biskupsstofa vill stuðla að upplýstri umræðu um skipan kirkjumála í stjórnarskrá Íslands en ein grein hennar fjallar sérstaklega um þjóðkirkjuna.
Frambjóðendur til stjórnlagaþings, sem ætlað er að að endurskoða stjórnarskána, hafa gefið mismiklar upplýsingar um stefnumál sín og áherslur svo sem um afstöðu sína til sambands ríkis og þjóðkirkju.
Það hlýtur því að skipta kirkjuna og söfnuði landsins máli hver afstaða einstakra frambjóðenda er til þessarar greinar og eins hvernig þeir vilja að sambandi ríkis og þjóðkirkju sé háttað. Það skiptir raunar máli fyrir öll trúfélög í landinu.
Biskupsstofa fer þess vinsamlegast á leit við frambjóðendur að þau geri í stuttu máli grein fyrir afstöðu sinni til 62. gr. stjórnarskrárinnar sem hljóðar svo:
Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda. Breyta má þessu með lögum.
- Telur þú þörf á að breyta þessari grein? Ef svo er hvernig?
- Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Kristbjörg Þórisdóttir
kandídatsnemi í sálfræði
Telur þú þörf á að breyta þessari grein?
Já
Ef svo er hvernig?
Ég tel að taka þurfi út seinni hluta setningarinnar þar sem ég tel að til að jafnræðis sé gætt á milli trúfélaga verði hvert trúfélag að standa á eigin fótum fjárhagslega. Einnig tel ég koma til greina að fella setninguna alveg út úr stjórnarskrá.
Hver er afstaða þín til núverandi sambands ríkis og þjóðkirkju?
Ég vil skilja á milli ríkis og kirkju í fjárhagslegum skilningi. Þjóðkirkjan haldi þó sínum sess sem hin opinbera kirkja landsins en standi fjárhagslega á eigin fótum. Með þessu fyrirkomulagi verði fjárhagslegu jafnræði komið á í þessum málaflokki án þess að menningarsögulegum arfi þjóðkirkjunnar verði fórnað. Ég tel að þjóðin þurfi að eiga lokasvarið með þjóðaratkvæði varðandi aðskilnað ríkis og kirkju. Samband ríkis og kirkju og kirkjujarðasamningarnir eru mál sem ég þarf að afla mér frekari upplýsinga um og kynna mér betur rök með og á móti til þess að mynda mér endanlega skoðun. Ég tel mikilvægt að málið verði ekki að deilumáli á stjórnlagaþingi.