Opnum augun fyrir Tíbet

(Birt 14. maí 2008 í Morgunblaðinu http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=1214157)

Ég man enn tilfinninguna, sex árum síðar, þegar við komum loksins að hliði Tíbet Tanggula Pass í 5136 metra hæð yfir sjávarmáli. Á móti okkur tóku flöktandi litríkir bænafánar í þunnu fjallaloftinu. Frá því ég heyrði sorgarsögu Tíbeta hefur það verið draumur minn að heimsækja Tíbet og kynnast þjóðinni, búddatrúnni og menningu hennar. Þessi afskekkta þjóð býr umlukin hæstu fjalla heims, Himalaya fjöllunum og liggur Everest hæsta fjall heims á mili Tíbet og Nepal. Þennan dag rættist draumur minn.
Eftir hrakningar á hásléttunni komst ferðahópurinn loksins til Lhasa. Lhasa er þak heimsins í bókstaflegri merkingu og stendur í 3650 metra hæð yfir sjávarmáli. Hún hefur verið nefnd staður guðanna enda draumkenndur og dularfullur staður. Háslétta Tíbet er ekki ýkja ólík Íslandi og stundum fannst mér ég vera komin heim.
Í mér bærðust tvíbentar tilfinningar. Gleðitilfinning yfir að vera komin til lands drauma minna en jafnframt sorgartilfinning yfir því að upplifa og sjá með eigin augum hvernig málum er ástatt. Höfuðborgin skiptist í tvo ólíka hluta, tíbetska hlutann og kínverska hlutann. Í Tíbet og Lhasa er mikið af aðfluttum Kínverjum og stefnir í að Tíbetar verði minnihlutahópur í sínu eigin landi ef þeir eru ekki þegar orðnir það. Kínverskar fjölskyldur mega eiga tvö börn í Tíbet en einungis eitt í Kína og er þannig markvisst verið að fjölga Kínverjum í Tíbet. Sagan sýnir að frá innrás alþýðuhersins árið 1950 þegar Tíbet var innlimað sem hérað í Kína hefur markvisst verið reynt að þróa menningu og lifnaðarhætti Tíbeta í átt að því sem tíðkast í Kína. Tíbetar hafa mátt sæta ofsóknum fyrir trú sína og trú á leiðtoga sinn, Dalai Lama, sem hraktist í útlegð til Indlands árið 1959. Í gegnum tíðina hafa Tíbetar nokkrum sinnum reynt að berjast fyrir sjálfstæði sínu með uppreisnum en það er andstætt lífsskoðunum búddista að beita vopnum og því hefur mótstaða þeirra verið árangurslaus og snöggt og grimmilega verið brotin á bak aftur af Kínverjum. Það er kaldhæðni fólgin í því að á móti helgasta stað Tíbeta Potala, hallar Dalai Lama, þá hafa kínversk stjórnvöld reist minnisvarða um „frelsun Tíbet“. Þetta eru fullkomin öfugmæli. Þær milljón Tíbeta sem fallið hafa í blóðugum bardögum síðustu fimmtíu ár, öll klaustrin sem lögð hafa verið í rúst, heilagar bækur sem hafa verið brenndar og djúpt sorgarmark sem merkja má í andliti hvers Tíbeta ber vott um allt annað. Það ber vott um kúgun kínverskra stjórnvalda og ráni þeirra á sjálfstæði Tíbeta. Þeir sem ekki hafa farið í útlegð til annarra landa halda áfram að snúa bænahjólunum sínum, iðka trú sína og vona. Búddatrúin boðar endurholdgun þannig að samofin henni er djúp virðing fyrir öllu formi lífs og biðja munkarnir fyrir skordýrunum sem þeir komast ekki hjá að kremja á för sinni. Þannig er með ólíkindum að einhver skuli trúa áróðri kínverskra stjórnvalda um að munkar skuli vera hryðjuverkamenn í bleikum klæðum sem eru líklegir til sjálfsmorðsárása. Það er þversögn við allt það sem líf Tíbeta gengur út á.
Ég hef gengið um höll Dalai Lama. Sú upplifun verður fest í minni mínu að eilífu. Eða eins og ég lýsti í ferðasögu minni: „Stanslaus umferð af pílagrímum að kyrja búddabænir sínar í öllum sínum fallegu klæðum, ótrúlega fátækt fólk sem komið hafði langan veg með örfá jiao til að gefa búdda, lyktin af jakuxakertunum alls staðar, ljóminn af þeim, búddalíkneski úr skíra gulli og andinn í loftinu“. Í garði þeim sem stendur hjá sumarhöll Dalai Lama fann ég fyrir himnaríki á jörð.
Tíbetar eru einstök þjóð sem búið hefur einangruð innan stórfenglegrar náttúru. Þeir eru þjóð sem eitt sinn var frjáls og iðkaði trú sína og átti friðsamt líf án afskipta umheimsins. Þeir eiga auðlindir sem aðrir ásælast. Þeir eru fámenn þjóð. Á margan hátt eru þeir ekki ólíkir okkur Íslendingum. Við erum einangruð, fámenn þjóð sem býr á einu fegursta landi heims og búum yfir náttúruauðlindum. Við vorum eitt sinn hluti af stærra veldi, Danaveldi. Nú erum við sjálfstæð þjóð.
Það er því þyngra en tárum taki að íslenskir ráðamenn skuli líta undan þegar málefni Tíbet ber á góma. Það er betra að horfa í hina áttina af ótta við það að styggja stórveldið Kína og missa af viðskiptasamböndum og stuðningi við framboð í Öryggisráðið. Er þetta gengið á mannréttindum í dag? Það hefur þá fallið álíka og gengi krónunnar. Ætlum við að selja sál okkar og sannfæringu á þessu verði?
Hvernig liði okkur ef Danir myndu ræna okkur sjálfstæðinu með blóðugum átökum og innlima okkur sem hluta Danaveldis? Ef þeir myndu flytja til Íslands í stórum hópum og stuðla að fjölgun sinni með brögðum og markvisst reyna að breyta menningararfi okkar, trú og tungumáli? Myndum við þá vilja að þjóðir heimsins litu undan og beygðu sig undir stórveldið?
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og ríkisstjórn Íslands: Mynduð þið þá styðja „Eitt Danaveldi“ stefnuna án þess að blikna? Á hvaða forsendum styðjum VIÐ Íslendingar „Eitt Kína“? Við skulum ekki gera sömu mistökin aftur.
Nú er tími Tíbeta kominn. Frjálst Tíbet.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s