Útlendingur í nýju landi

(Óbirt, skrifað haustið 2008).

Síðastliðið haust urðu miklar breytingar á lífi mínu. Ég flutti utan til Árósa í Danmörku til þess að ljúka framhaldsmenntun minni í sálfræði. Það er skrýtin tilfinning að umbylta lífi sínu með því að segja skilið við 8 ára starf, taka hlé frá pólitískum störfum, kveðja fjölskyldu og vini til þess að setjast að tímabundið í nýju umhverfi. Það er á hinn bóginn afar lærdómsríkt og eflir mann persónulega. Það er öllum hollt að víkka sjóndeildarhringinn með því að kynnast öðru samfélagi.

Það er afskaplega skrýtin tilfinning að vera orðin útlendingur í öðru landi. Maður upplifir sjálfan sig fara mörg skref tilbaka en mun svo vonandi fara fleiri skref fram á við þegar upp er staðið. Ég veit að ég mun öðlast og taka með mér nýja reynslu aftur heim til Íslands og ég veit að það er ýmislegt sem við Íslendingar getum lært af Dönum. Það er skondið að upplifa hversu margt í okkar menningu kemur frá frændum okkar. Margt af því sem þykir góður matur hér í Danmörku er veislumatur á borðum okkar Íslendinga. Þar má nefna sem dæmi hamborgarahrygg, reyktan og grafinn lax, síld, roastbeef, skinku og fleira.

Það sem ég fann strax fyrir hér úti er hversu afslappað andrúmsloftið er í Danmörku. Það kapphlaup við tímann sem einkennir íslenskt hversdagslíf er ekki að finna í sama mæli hér. Ef fólk stendur í biðröð í búð þá stendur það bara sallarólegt þó það þurfi að bíða dágóða stund. Heima á Íslandi tel ég að maður væri fljótt farinn að fussa eða stappa niður fótum og hóta því að sækja verslunarstjórann.

Það er líka munur á okkur og Dönum að því leyti að þeir hugsa meira út frá samfélagslegu sjónarhorni á meðan við Íslendingar hugsum meira einstaklingsmiðað. Fólk er komið lengra í því að hugsa um heildina, taka tillit og sýna náunganum umburðarlyndi. Kannski er það að hluta til sökum fjöldans. Hér keyra til dæmis flestir strætisvagnar fullir frá morgni til kvölds og fólk er því meira í nálægð en heima þar sem langflestir keyra um á einkabílnum. Það er ekki sama neysla hér og heima og margir ferðast aðeins um á hjóli og virðast ekki eyða meiru en þeir afla. Það er líka áberandi meiri agi í þjóðfélaginu hér. Fólk stoppar og bíður á meðan rauður kall logar á gönguljósi, jafnvel á laugardagskvöldi þegar það er að skemmta sér. Heima fara flestir yfir ef ekki er bíll sjáanlegur.

Það er sérstakt að upplifa þá skerðingu sem tungumálaskortur hefur í för með sér. Að vissu leyti upplifði ég ákveðna hindrun sem líkja mætti við þær hindranir sem fatlað fólk upplifir á stundum. Það tel ég vera dýrmæta reynslu fyrir mig. Það var mér erfitt að sitja í tíma og heyra alla spjalla án þess að geta lagt orð í belg eða skilja hvað fór fram. Það var mér einnig erfitt að geta ekki rétt upp hönd og sagt mína skoðun á málinu. Þeir sem þekkja mig vel vita hversu erfitt þetta hefur verið mér. Ég hef notað það mikið að brosa og sýna jákvæðni og kurteisi með líkamstjáningu. Það virkar hvar sem er í heiminum og það skilja allir brosið. Brosið er eitt máttugasta samskiptatæki sem við eigum.

Það vakti líka athygli mína að sjá hvernig Danir kunna að njóta lífsins. Það er yndislegt að sjá hjón sitja saman á kaffihúsi á virkum degi og „hygge sig“ yfir kertaljósi og kaffibolla eða øl og smørrebrød. Danir virðast líka hafa skýr skil á milli vinnu og einkalífs. Þeir mæta snemma og hætta snemma. Það er til dæmis merkilegt að sjá hvernig þeir fara heim á slaginu fjögur í skólanum á meðan íslensku nemarnir, þar meðtalin ég, eru að mæta mun seinna en fara líka seinna. Danir vinna til að lifa en Íslendingar lifa til að vinna.

Fyrst eftir að ég flutti hingað út leið mér eins og ég væri stödd í dönskum „Survivor“ þætti sem ætti sér stað á háskólasvæði. Allar þær upplýsingar sem ég átti að fá fóru bréfleiðis til Íslands og í staðinn þurfti ég að finna allt út á eigin spýtur. Ég var svo þrjósk að ég talaði bara dönsku og fékk því öll svör á dönsku og þá fauk stór hluti upplýsinga út í vindinn. Ég var líka í því fyrstu vikurnar að gera mig að athlægi. Eitt skemmtilegt dæmi um það var þegar afgreiðslustúlkan í búðinni spurði mig hvort ég vildi fá kvittunina þegar ég var að versla og vegna misskilnings þá svaraði ég henni: „Ég er frá Íslandi“! Hún leit heldur furðulega við því vegna útlits míns taldi hún mig vera danska.

Það er líka skrýtið að hafa alist upp við það að þurfa ekki mikið að velta rafmagni og vatni fyrir sér. Hérna er maður fljótur að læra inn á það að maður slekkur um leið á krananum og lætur vatn aldrei renna til spillis. Maður hefur heldur ekki logandi ljós nema þörf sé á þeim. Við Íslendingar mættum nú alveg taka til í eigin ranni og tileinka okkur þetta því þó við búum í gullnámu með alla okkar orku og vatnsauðlindir þá eru uppspretturnar ekki óendanlegar og okkur ber sama skylda og öðrum jarðarbúum til þess að nýta gjafir móður jarðar vel en láta þær ekki fara til spillis.

Ég hlakka mikið til að koma heim aftur í faðm fjölskyldu og vina og sjá landið mitt og fjöllin sem ég sakna svo sárt héðan úr Danmörku. Ég ætla hins vegar að njóta þessarar lífsreynslu út í ystu æsar og næra mig á allan þann hátt sem hægt er en finn það jafnframt að íslensku ræturnar mínar eru sterkar og verða seint rifnar upp.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s