Lokaspretturinn

Jæja þá er lokaspretturinn hafinn. Allt sem maður gerir í lífinu tekur einhvern enda. Í upphafi virðist tíminn óendanlegur en svo skyndilega eru síðustu sandkornin að renna niður stundaglasið. Augnablikin eru á sífelldri hreyfingu og það er okkar að grípa hvert eitt og einasta og nýta þau eins og við viljum helst. Það er okkar að lifa í núinu og vanda vel hvernig við verjum hverju augnabliki, hverjum degi vegna þess að við vitum í raun ekki hvernig staðan er á stóra stundaglasinu okkar, hvað við eigum mikinn tíma eftir. Þess vegna er ágætt að minna sig á það að allt tekur einhvern tímann enda og markmiðið sem virtist í svo mikilli órafjarlægð í upphafi eins og kjördagur er allt í einu handan við hornið.

Að fara í framboð til stjórnlagaþings er ein af betri ákvörðunum mínum í lífinu. Vissulega hefur maður oft ekki vitað hvað maður ætti að gera í þessari kosningabaráttu eða hvað maður hafi hreinlega verið búinn að koma sér út í. Keyrt um göturnar og velt því fyrir sér hvort maður ætti að grípa þennan eða þennan og minna á sig? Velt því fyrir sér hvernig maður eigi að snerta þessi 220 þúsund manns sem eru á kjörskrá. Ég held að maður verði bara að treysta á það að hafa náð inn til þeirra sem deila svipuðum skoðunum og maður hafi einnig lifað þannig lífi að fólk þekki mann mestmegnis af góðu.

Fyrst og fremst vona ég að fólk taki þátt. Tækifærið sem skapast hefur núna er sögulegt og það er í raun okkar sem höfum viljað sjá breytingar í þessu samfélagi að nýta þetta tækifæri. Við megum ekki láta það renna eins og sand úr höndunum á okkur. Við þurfum að standa saman, taka umræðuna og komast að niðurstöðu um það hvernig samfélagi við viljum búa í. Hvernig getum við skapað samfélag sem okkur 318.200 líður vel í?

Ég hef lært alveg gríðarlega mikið á þessu framboði. Lært það hvernig er að vera í persónukjöri, hvernig á að setja upp síðu á Facebook, setja upp þessa heimasíðu, lært heilmikið um stjórnarskrána og velt fyrir mér grunngerð samfélagsins og svo margt margt fleira. Ég hef í þessu lært aðeins betur á sjálfa mig. Þess vegna geng ég óhrædd inn í lokasprettinn ég mun hvernig sem atkvæðin koma út úr talningavélunum aldrei tapa á þessu. Þó ég endi í 522 sæti þá hef ég unnið sigur fyrir mitt leyti 🙂

Við sem þjóð höfum líka lært heilmikið og verðum reynslunni ríkari næst þegar við förum í persónukjör. Fólk hefur tekið umræðuna á kaffistofum út um allt og þannig verður hin raunverulega breyting til. Hún gerist ekki bara með því að breyta texta á blaði. Hún verður með fólkinu sjálfu og breytingu á hugarfari þess og viðhorfum. Margir sem ekki veltu fyrir sér öðru en sínu nærumhverfi hafa núna kynnt sér vel málefni samfélagsins og láta sig þau varða.

Ég vil enda á því að þakka eins vel og ég get fært í orð öllum þeim sem hafa lagt á sig ómetanlega vinnu við það að tala mínu máli og kynna málstað minn um víðan völl. Eitt það dýrmætasta sem maður á í lífinu er fólkið sem umlykur mann og í svona baráttu finnur maður vel hversu dýrmætt það er. Það hefur einnig verið mér dýrmætt að finna stuðning frá fólki sem ekki þekkir mig persónulega og við það hef ég öðlast meiri trú á fólk almennt. Fólk er tilbúið að leggja á sig mikla vinnu við það að kynna sér málefni ókunnugs frambjóðanda og tala svo máli viðkomandi líki því það sem fram kemur.

Ég vil því enda á að segja TAKK.

Nýtum tækifærið á morgun og sköpum saman betra Ísland 🙂

Um Kristbjörg Þórisdóttir nr. 6582

Ég er 32 ára kandídatsnemi í sálfræði sem býð mig fram til stjórnlagaþings. Ég bið um stuðning þinn og bið þig um að greiða mér atkvæði þitt en þú hefur 1 atkvæði og 24 til vara. Ég bið þig um að setja mig í 1. sæti :)
Þessi færsla var birt undir Framboð til stjórnlagaþings. Bókamerkja beinan tengil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s